Lög félagsins


1. grein

Félagið heitir Sportkafarafélag Íslands, skammstafað SKFÍ, og er varnarþing þess í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur félagsins er að:

 1. Vinna að framgangi sportköfunar og standa vörð um hana með því að stuðla að ábyrgri afstöðu til hennar meðal félaga og annarra.
 2. Vinna að og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á lögum og reglugerðum er viðkoma sportköfun.
 3. Stuðla að auknum skilningi á málefnum félagsins út á við.
 4. Ná sem viðtækustu samstarfi við önnur félög og einstaklinga er varðar sportköfun.
 5. Efna til félagsstarfsemi s.s, funda, mannfagnaða og kynninga.
 6. Vera fulltrúi sportkafara gagnvart hinu opinbera.
 7. Gefa félagsmönnum gott fordæmi um umgengni og verndun lands og sjávar.

3. grein

Allir geta orðið félagar. Umsækjendur yngri en 18 ára þurfa að leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða forráðamanna. Þeim einum sem hafa alþjóðleg köfunarréttindi sem samþykkt eru af félaginu og uppfylla kröfur samkvæmt íslenskum lögum leyfist að kafa á vegum félagsins.

4. grein

Stjórn er heimilt að leggja fram á aðalfundi tillögu að heiðursfélögum sem unnið hafa markverð störf í þágu sportköfunar á Íslandi. Til kjörs heiðursfélaga þarf samþykki 2/3 hluta mættra fullgildra félaga á aðalfundi. Tillögur um kjör heiðursfélaga skulu vera á dagskrá aðalfundar.

Aðalfundur

5. grein

Haldinn skal aðalfundur í febrúar ár hvert. Skal þar taka fyrir venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Stjórn boðar til aðalfundar með minnst 15 daga fyrirvara  í miðlum félagsins. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins og er því aðeins löglegur sé löglega til hans boðað.

6. grein

Rétt til setu, atkvæðagreiðslu og kjörgengis á aðalfundi hafa mættir fullgildir félagar, en fullgildir eru þeir félagar sem skuldlausir eru og hafa greitt félagsgjöld þess árs sem aðalfundur fer fram á, ásamt heiðursfélögum. Stjórn getur einnig boðið öðrum aðilum á fundinn ef sérstök ástæða þykir til.

7. grein

Formaður setur fundinn og kosinn er fundarstjóri. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara og sker úr um öll atriði varðandi meðferð mála og atkvæðagreiðslu nema sérstök ástæða sé að vísa því til fundarins.

8. grein

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

 1. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
 2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs.
 3. Lagabreytingar samkvæmt 10. grein laga félagsins.
 4. Kosning stjórnar, varamanna og óháðs skoðunarmanns reikninga..
 5. Kosning í nefndir.
 6. Tillögur um árgjald í félagssjóð.
 7. Önnur mál.

Kosningar skulu vera skriflegar, nema fundurinn samþykki annað. Allar tillögur skulu vera skriflegar. Stjórnarskipti skulu fara fram strax að loknum aðalfundi.

9. grein

Lagabreytingar má aðeins leggja fram til samþykktar á aðalfundi. Ná þær aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar mættra fullgildra félaga séu þeim samþykkir. Séu þær felldar og bornar upp samhljóða eða efnisbreytingalaust á næsta aðalfundi ná þær aðeins samþykki með 3/4 hluta atkvæða mættra fullgildra félaga. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund og þær tilkynntar félögum í aðalfundarboði. Efni lagabreytinga skal aðgengilegt félögum eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund í miðlum félagsins.

Stjórn og nefndir

10. grein

Stjórn kveður til aukaaðalfundar þegar þess er þörf eða 1/5 hluti fullgildra félaga hið minnsta óskar þess, enda geri þeir áður grein fyrir fundarefninu. Til aukaaðalfundar skal boða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara í miðlum félagsins.

11. grein

Stjórn félagsins skipa fimm, formaður og fjórir meðstjórnendur og eru þeir kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Sérstaklega skal kjósa formann og tvo varamenn. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum. Forfallist aðalmenn í stjórn eða hætti störfum, skal kalla til varamann sem tekur sæti í fullskipaðri stjórn. Framboð til formanns og stjórnar skulu hafa borist fráfarandi stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund og þau kynnt félagsmönnum eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund, í miðlum félagsins. Stjórn félagsins skal setja sér starfsreglur.

12. grein

Formaður boðar til stjórnarfundar ef þörf krefur eða tveir stjórnarmeðlimir óska þess enda hafi þeir áður gert grein fyrir fundarefni. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi, þó er ályktun því aðeins lögleg að minnst þrír stjórnarmenn samþykki hana. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Stjórn hefur á hendi sér allar framkvæmdir milli aðalfunda, hefur eftirlit með nefndum og kemur fram fyrir hönd félagsins. Formann ásamt tveimur meðstjórnendum þarf til að skuldbinda félagið með undirskriftum sínum.

13. grein

Stjórn félagsins skipar yfirpressustjóra sem hefur yfirumsjón með loftpressum félagsins, notkun og viðhaldi. Yfirpressustjóri skal vera vel að sér um meðferð og viðhald pressanna. Yfirpressustjóri velur pressustjóra sem eru staðgenglar hans. Yfirpressustjóri ákveður í samráði við stjórn hvaða reglur gilda um pressun á kúta félagsmanna. Einungis tilgreindum pressustjórum er heimil notkun á loftpressum félagsins.

14. grein

Stjórn skipar umsjónarmann köfunarferða á vegum félagsins. Hann skipuleggur köfunardagskrá í samráði við stjórn. Umsjónarmaður raðar köfunarstjórum á félagsferðir. Í köfunarferðum félagsins skulu félagar lúta reglum félagsins og kafa innan ramma reynslu sinnar og heimilda.

15. grein

SKFÍ ber ekki ábyrgð á slysum, meiðslum, skemmdum eða nokkru öðru tjóni sem hlotist getur vegna æfinga, ferða eða sportköfunar á vegum félagsins.

16. grein

Félagsfundi skal halda ef a.m.k. 10% fullgildra félaga krefjast þess með bréfi til stjórnarinnar og skal fundarboðun þá fara fram eigi síðar en einni viku eftir að krafan barst til stjórnarinnar. Félagsfundi skal boða með nægum fyrirvara með auglýsingu í miðlum félagsins,

Fjármál

17. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn skal velja óháðann skoðunarmann bókhalds félagsins fyrir starfsárið.

18. grein

Rekstur félagsins skal fjármagnaður með félagsgjöldum, styrkjum og þ.h. Fjármuni félagsins skal einungis nota í þágu þess. Tekjur renna í sjóð félagsins og skal honum varið í framkvæmdir og rekstur eftir settum reglum á hverjum tíma. Fjórðungur af nettóhagnaði félagsins ár hvert skal renna í varasjóð. Sjóðurinn skal þó aldrei vera stærri en 10% af heildareignum félagsins. Varasjóði þessum má einungis ráðstafa ef upp koma neyðartilfelli, að mati stjórnar. Enginn félagi hefur tilkall til hluta af sjóðnum þó hann hverfi úr félaginu eða því sé slitið.

19. grein

Árlegt félagsgjald er greitt fyrir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember. Gjalddagi félagsgjalda skal vera 1. febrúar ár hvert.

Úrsögn og brottvikning

20. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn. Úrsögn tekur gildi einum mánuði eftir að hún berst stjórninni. Félagsgjöld eru ekki endurgreidd þó að við úrsögn sé ekki liðið yfirstandandi gjaldaár.

21. grein

Brjóti félagi lög eða reglur félagsins, sýni agaleysi, vítavert eða ítrekað kæruleysi við sportköfun er stjórninni heimilt að setja hann í bann um tiltekinn tíma. Stjórn getur vikið félaga úr félaginu en ákvörðun hennar er heimilt að áfrýja til næsta aðalfundar.

Félagsslit

22. grein

Félaginu verður aðeins slitið á aðalfundi sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni og verður að minnsta kosti helmingur atkvæðisbærra manna að vera mættur og 3/4 hluti hinna mættu fundarmanna samþykkir slitum þess. Verði félagsslit ákveðin skal Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands falin umsjón eigna félagsins þar til annað félag í svipuðum tilgangi verður stofnað og ganga eignirnar þá til hins nýja félags.


Þannig samþykkt á aðalfundi SKFÍ, 17. febrúar 2018.