Lagabreytingatillögur

Vinsamlegast farið vel yfir lagabreytingatillögurnar. Viðbætur og breytingar eru merktar í bláu og fjarlægður texti er merktur í rauðu. Undir hverri grein eru skýringar á af hverju við leggjum til viðkomandi breytingar. 

1. grein

Núverandi

Félagið heitir Sportkafarafélag Íslands og er varnarþing þess í Reykjavík.

Breytingatillaga

Félagið heitir Sportkafarafélag Íslands, skammstafað SKFÍ, og er varnarþing þess í Reykjavík.

Útskýring

Breyting sem hugsuð er til að samræma hvernig skammstöfun félagsins ætti að vera. Hefur komið fyrir að félagið er skammstafað með lágstöfum eða með punktum á milli. 

2. grein

Núverandi

Tilgangur félagsins er:

 1. Að vinna að framgangi sportköfunar og standa vörð um íþróttina með því að stuðla að ábyrgri afstöðu til hennar meðal félagsmanna og annarra.
 2. Vinna að og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á lögum og reglugerðum er viðkoma sportköfun.
 3. Stuðla að auknum skilningi á málefnum félagsins útávið.
 4. Ná sem viðtækustu samstarfi við önnur félög og einstaklinga er varðar sportköfun.
 5. Efna til félagsstarfsemi s.s, funda, mannfagnaða og útgáfustarfsemi.
 6. Vera fulltrúi sportkafara gagnvart hinu opinbera.
 7. Gefa félagsmönnum gott fordæmi um umgegni og verndun lands og sjávar.
 8. Að halda skrá yfir löggilda köfunarleiðbeinendur.
 9. Að halda skrá yfir köfunarstaði.


Breytingatillaga

Tilgangur félagsins er :

 1. Vinna að framgangi sportköfunar og standa vörð um hana með því að stuðla að ábyrgri afstöðu til hennar meðal félaga og annarra.
 2. Vinna að og fylgjast með nauðsynlegum endurbótum á lögum og reglugerðum er viðkoma sportköfun.
 3. Stuðla að auknum skilningi á málefnum félagsins út á við.
 4. Ná sem viðtækustu samstarfi við önnur félög og einstaklinga er varðar sportköfun.
 5. Efna til félagsstarfsemi s.s, funda, mannfagnaða og kynninga.
 6. Vera fulltrúi sportkafara gagnvart hinu opinbera.
 7. Gefa félagsmönnum gott fordæmi um umgengni og verndun lands og sjávar.

Útskýring

Smávægilegar textabreytingar í fyrirsögn, 1., 3., 5. og 7. lið

Liðir 8 og 9 fjarlægðir. Stjórn finnast þessir liðir ekki eiga heima í lögum félagsins, heldur falla undir lið 1.

3. grein

Núverandi

Allir geta orðið félagar. Umsækjendur yngri en 18 ára skulu leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða forráðamanna. Þeim einum sem hafa alþjóðleg köfunarréttindi sem samþykkt eru af félaginu og uppfylla kröfur samkvæmt íslenskum lögum mega kafa á vegum félagsins.

Breytingatillaga

Allir geta orðið félagar. Umsækjendur yngri en 18 ára þurfa að leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða forráðamanna. Þeim einum sem hafa alþjóðleg köfunarréttindi sem samþykkt eru af félaginu og uppfylla kröfur samkvæmt íslenskum lögum leyfist að kafa á vegum félagsins. 

Útskýring

Smávægilegar textabreytingar. Bætt inn vísun í íslensk lög.

4. grein

Núverandi

Stjórn er heimilt að leggja fram á aðalfundi tillögu að heiðursfélögum sem unnið hafa markverð störf í þágu sportköfunar á Íslandi. Til kjörs heiðursfélaga þarf samþykki 2/3 hluta mættra atvæðisbærra manna á aðalfundi. Kjör heiðursfélaga skal kynna eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund í fréttamiðli félagsins.

Breytingatillaga

Stjórn er heimilt að leggja fram á aðalfundi tillögu að heiðursfélögum sem unnið hafa markverð störf í þágu sportköfunar á Íslandi. Til kjörs heiðursfélaga þarf samþykki 2/3 hluta mættra fullgildra félaga á aðalfundi. Tillögur um kjör heiðursfélaga skulu vera á dagskrá aðalfundar.

Útskýring

Fullgidir félagar í stað atkvæðisbærra manna, sjá 7. grein. 

Kjör heiðursfélaga skal koma fram í fundarboði aðalfundar.

Aðalfundur

5. grein

Núverandi

Styrktarfélagar geta bæði verið einstaklingar og fyrirtæki. Ef árlegt fjárframlag styrktarfélaga er upphæð jafnhá eða hærri en árgjald, felur það í sér réttindi til setu á félagsfundum með tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Breytingatillaga

Grein felld út

Útskýring

Við leggjum til að þessi grein verði felld út. Ef styrktaraðilar fást þá þurfa þeir ekki réttindi til setu á fundum, og ef þú ert einstaklingur þá getur þú valið um að gerast félagi, eða styrkja félagið.

6. grein

Núverandi

Haldinn skal aðalfundur í febrúar ár hvert. Skal þar taka fyrir venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Stjórn boðar til aðalfundar með minnst 15 daga fyrirvara með tölvupósti og í fréttamiðil félagsins. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins og er því aðeins löglegur sé löglega til hans boðað.

Breytingatillaga

Haldinn skal aðalfundur í febrúar ár hvert. Skal þar taka fyrir venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins. Stjórn boðar til aðalfundar með minnst 15 daga fyrirvara  í miðlum félagsins. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins og er því aðeins löglegur sé löglega til hans boðað.

Útskýring

Til einföldunar fyrir stjórn.

7. grein

Núverandi

Rétt til setu og kjörgengis á aðalfundi hafa, mættir fullgildir skuldlausir félagar sem greitt hafa félagsgjöld þess árs sem aðalfundur fer fram á, heiðursfélagar og styrktarfélagar samkv. 5 gr. Stjórn getur einnig boðið ef sérstök ástæða þykir öðrum aðilum á fundinn. Kosningarétt hafa einungis mættir skuldlausir félagar.

Breytingatillaga

Rétt til setu, atkvæðagreiðslu og kjörgengis á aðalfundi hafa mættir fullgildir félagar, en fullgildir eru þeir félagar sem skuldlausir eru og hafa greitt félagsgjöld þess árs sem aðalfundur fer fram á, ásamt heiðursfélögum. Stjórn getur einnig boðið öðrum aðilum á fundinn ef sérstök ástæða þykir til

Útskýring

Einföldun á texta og samræming við fyrri breytingar.

8. grein

Núverandi

Formaður setur fundinn og kosinn er fundarstjóri. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara og sker úr um öll atriði varðandi meðferð mála og atkvæðagreiðsla nema sérstök ástæða sé að vísa því til fundarins.

Breytingatillaga

Formaður setur fundinn og kosinn er fundarstjóri. Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara og sker úr um öll atriði varðandi meðferð mála og atkvæðagreiðslu nema sérstök ástæða sé að vísa því til fundarins.

Útskýring

Stafsetning leiðrétt.

9. grein

Núverandi

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

 1. Inntaka nýrra félaga
 2. Lesin fundargerð síðasta aðalfundar.
 3. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
 4. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs.
 5. Lagabreytingar samkvæmt 11. grein laga félagsins.
 6. Kosning stjórnar, varamanna, endurskoðanda og öryggisnefndar.
 7. Kosning annarra nefnda.
 8. Tillögur um ársgjald í félagssjóð.
 9. Önnur mál.

Kosningar skulu vera skriflegar, nema fundurinn samþykki annað. Allar tillögur skulu vera skriflegar. Stjórnarskipti skulu fara fram strax að loknum aðalfundi.


Breytingatillaga

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

 1. Stjórn og nefndir gefa skýrslu um starfsemi liðins árs.
 2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs.
 3. Lagabreytingar samkvæmt 10. grein laga félagsins.
 4. Kosning stjórnar, varamanna og óháðs skoðunarmanns reikninga..
 5. Kosning í nefndir.
 6. Tillögur um árgjald í félagssjóð.
 7. Önnur mál.

Kosningar skulu vera skriflegar, nema fundurinn samþykki annað. Allar tillögur skulu vera skriflegar. Stjórnarskipti skulu fara fram strax að loknum aðalfundi.

Útskýring

Lagt er til að fjarlægja fyrstu 2 liðina:

 • Engin sérstök inntaka nýrra félaga fer fram.
 • Fyrir aðalfund mun fundargerð síðasta aðalfundar liggja fyrir á miðlum félagsins og því er talinn óþarfi að lesa hana sérstaklega upp.

3. liður: breyting töluliðar greinar vegna niðurfelldrar greinar að ofan.

4. liður: félagið er með skoðunarmann reikninga, ekki endurskoðanda.

5. liður: einföldun. Ekki er kosið sérstaklega í öryggisnefnd, auk þess sem það myndi falla undir liðinn Önnur mál.

6. liður: stafsetning leiðrétt.

10. grein

Núverandi

Lagabreytingar má aðeins leggja fram til samþykktar á aðalfundi. Ná þær aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar mættra fullgildra félaga séu þeim samþykkir. Séu þær felldar og bornar upp samhljóða eða efnisbreytingalaus á næsta aðalfuni ná þær aðeins samþykki með 3/4 hluta atkvæða mættra fullgildra félaga. Tillögur til lagabreytinga skal hafa borist stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund og þær kynntar félagsmönnum eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund, í fréttamiðli félagsins.

Breytingatillaga

Lagabreytingar má aðeins leggja fram til samþykktar á aðalfundi. Ná þær aðeins fram að ganga að 2/3 hlutar mættra fullgildra félaga séu þeim samþykkir. Séu þær felldar og bornar upp samhljóða eða efnisbreytingalaust á næsta aðalfundi ná þær aðeins samþykki með 3/4 hluta atkvæða mættra fullgildra félaga. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund og þær tilkynntar félögum í aðalfundarboði. Efni lagabreytinga skal aðgengilegt félögum eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund í miðlum félagsins. 

Útskýring

Leiðrétt stafsetning og „fréttamiðli félagsins“ breytt í „miðlum félagsins“ en sú breyting var samþykkt á síðasta aðalfundi.

Stjórn og nefndir

11. grein

Núverandi

Stjórn kveður til aukaaðalfundar þegar þess er þörf eða 1/5 hluti fullgildra félaga hið minnsta óski þess, enda geri þeir áður grein fyrir fundarefninu. Til aukaaðalfundar skal boða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara í tölvupósti og fréttamiðli félagsins.

Breytingatillaga

Stjórn kveður til aukaaðalfundar þegar þess er þörf eða 1/5 hluti fullgildra félaga hið minnsta óskar þess, enda geri þeir áður grein fyrir fundarefninu. Til aukaaðalfundar skal boða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara í miðlum félagsins.

Útskýring

Málfræði og samræming við fyrri breytingu.

12. grein

Núverandi

Stjórn félagsins skipa fimm, formaður og fjórir meðstjórnendur og eru þeir kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Sérstaklega skal kjósa til formanns og tveggja varamanna. Á fyrsta stjórnarfundi, af afstöðnum aðalfundi, skal formaður skipa meðstjórnendur í stöðu varaformanns, gjaldkera og ritara. Stjórn skal velja óháðann skoðunarmann af bókhaldi félgsins fyrir komandi ár. Forfallist aðalmenn í stjórn eða hætta störfum skal kalla til varamann sem tekur sæti í fullskipaðri stjórn. Framboð til formanns og stjórnar skulu hafa borist stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund og þau kynnt félagsmönnum eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund, í fréttamiðli félagsins. Ársreikningur skal kynntur samhliða framboðslista.

Breytingatillaga

Stjórn félagsins skipa fimm, formaður og fjórir meðstjórnendur og eru þeir kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Sérstaklega skal kjósa formann og tvo varamenn. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum. Forfallist aðalmenn í stjórn eða hætti störfum, skal kalla til varamann sem tekur sæti í fullskipaðri stjórn. Framboð til formanns og stjórnar skulu hafa borist fráfarandi stjórn a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund og þau kynnt félagsmönnum eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund, í miðlum félagsins. Stjórn félagsins skal setja sér starfsreglur.

Útskýring

um formann og varamenn: málfar bætt.
um stjórnarfund: einföldun.
Setning um að stjórn velji óháðan skoðunarmann tekin út, enda skoðunarmaður kosinn á aðalfundi.
fráfarandi: bætt inn til skýringar
Setning tekin út.
Bætt inn ákvæði um starfsreglur stjórnar.


13. grein

Núverandi

Formaður kveður til stjórnarfundar ef þörf krefur eða tveir stjórnarmeðlimir óska þess enda hafi þeir áður gert grein fyrir fundarefni. Tryggja skal að stjórn geti komið saman með stuttum fyrirvara. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi, þó er ályktun því aðeins lögleg að þrír stjórnarmenn hið fæsta samþykki hana. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Stjórn hefur á hendi sér allar framkvæmdir milli aðalfunda, hefur eftirlit með nefndum og kemur fram fyrir hönd samtakanna. Formaður ásamt tveimur meðstjórnendum þarf til að skuldbinda félagið með undirskriftum sínum.

Breytingatillaga

Formaður boðar til stjórnarfundar ef þörf krefur eða tveir stjórnarmeðlimir óska þess enda hafi þeir áður gert grein fyrir fundarefni. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi, þó er ályktun því aðeins lögleg að minnst þrír stjórnarmenn samþykki hana. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Stjórn hefur á hendi sér allar framkvæmdir milli aðalfunda, hefur eftirlit með nefndum og kemur fram fyrir hönd félagsins. Formann ásamt tveimur meðstjórnendum þarf til að skuldbinda félagið með undirskriftum sínum.

Útskýring

boðar: málfar
óþörf setning felld út
minnst: málfar
félagsins í stað samtakanna (samræming)
formann: málfræði


14. grein

Núverandi

Yfirumsjón með loftpressum félagsins, notkun og viðhaldi.  skal vera vel að sér um meðferð og viðhald pressanna. Pressustjórum ber að fylgjast með því að lofthylki sem hlaðin eru hafi löglega þrýstiprófun. Einungis tilgreindum pressustjórum er heimil notkun á loftpressum félagsins. Pressunefnd ber skylda til þess að tryggja hreinleika loftsins samkvæmt gildandi lögum og reglum.


Á aðalfundi skal kjósa í pressunefnd og húsnefnd. Hver nefnd skal skipa sér einn fulltrúa sem er tengiliður við stjórn. Fjármál nefnda skulu vera á hendi gjaldkera félagsins. Verksvið nefnda vísast til nafns þeirra og skulu þær starfa eftir settum reglun, bestu getu og hafa hagsmuni félagsins, félagsmanna og sportköfunar að leiðarljósi.

Breytingatillaga

Stjórn félagsins skipar yfirpressustjóra sem hefur yfirumsjón með loftpressum félagsins, notkun og viðhaldi. Yfirpressustjóri skal vera vel að sér um meðferð og viðhald pressanna. Yfirpressustjóri velur pressustjóra sem eru staðgenglar hans. Yfirpressustjóri ákveður í samráði við stjórn hvaða reglur gilda um pressun á kúta félagsmanna. Einungis tilgreindum pressustjórum er heimil notkun á loftpressum félagsins. 

Útskýring

Einföldun á reglum í samræmi við verklag eins og það er nú.

15. grein - ný grein

Núverandi

.

Breytingatillaga

Stjórn skipar umsjónarmann köfunarferða á vegum félagsins. Hann skipuleggur köfunardagskrá í samráði við stjórn. Umsjónarmaður raðar köfunarstjórum á félagsferðir. Í köfunarferðum félagsins skulu félagar lúta reglum félagsins og kafa innan ramma reynslu sinnar og heimilda.

Útskýring

Ný grein um umsjónarmann köfunarferða til einföldunar í samræmi við verklag eins og það er nú.

15. grein

Núverandi

SKFÍ ber ekki ábyrgð á slysum, meiðslum, skemmdum eða nokkru öðru tjóni sem af hlotist getur vegna æfinga, ferða eða sportköfunar á vegum félagsins.

Breytingatillaga

SKFÍ ber ekki ábyrgð á slysum, meiðslum, skemmdum eða nokkru öðru tjóni sem hlotist getur vegna æfinga, ferða eða sportköfunar á vegum félagsins.

Útskýring

orðið af tekið út

16. grein

Núverandi

Félagsfundi skal halda að jafnaði ársfjórðungslega eða ef a.m.k. 10% atkvæðisbærra félaga krefjist þess með bréfi til stjórnarinnar og skal fundarboðun þá fara fram eigi síðar en einni viku eftir að krafan barst til stjórnarinnar. Félagsfundi skal boða með nægum fyrirvara með auglýsingu í fréttamiðli félagsins,

Breytingatillaga

Félagsfundi skal halda ef a.m.k. 10% fullgildra félaga krefjast þess með bréfi til stjórnarinnar og skal fundarboðun þá fara fram eigi síðar en einni viku eftir að krafan barst til stjórnarinnar. Félagsfundi skal boða með nægum fyrirvara með auglýsingu í miðlum félagsins,

Útskýring

texti felldur brott
breytt orðalag í samræmi við fyrri breytingar

Fjármál

17. grein

Núverandi

Reiknisár félagsins er almanaksárið. Einn óháður skoðunarmaður skal valinn af stjórn ár hvert og tilkynntur til félgsmanna eftir fyrsta stjórnarfund nýrrar stjórnar. Ársreikningur skal fenginn í hendur skoðunarmanni að minnsta kosti viku fyrir aðalfund.

Breytingatillaga

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn skal velja óháðann skoðunarmann bókhalds félagsins fyrir starfsárið. 

Útskýring

Stafsetning leiðrétt
Óþarfur texti felldur brott, ákvæði um kosningu skoðunarmanns reikninga er skv. dagskrá aðalfundar.

18. grein

Núverandi

Rekstur félagsins skal fjármagnaður með félagsgjöldum, styrkjum og þ.h. Fjármuni félagsins skal einungis nota í þágu þess. Tekjur renna í sjóð félagsins og skal honum varið í framkvæmdir og rekstur að öðru leyti eftir settum reglum á hverjum tíma. Fjórðungur af nettóhagnaði félagsins ár hver skal renna í varasjóð. Sjóðurinn skal þó aldrei vera stærri en 10% af heildareignum félagsins. Varasjóði þessum má einungis ráðstafa ef upp koma neyðartilfelli, að mati stjórnar. Engin meðlimur félagsins hefur tilkall til hluta af sjóðum þó hann hverfi úr félaginu eða því sé slitið.

Breytingatillaga

Rekstur félagsins skal fjármagnaður með félagsgjöldum, styrkjum og þ.h. Fjármuni félagsins skal einungis nota í þágu þess. Tekjur renna í sjóð félagsins og skal honum varið í framkvæmdir og rekstur eftir settum reglum á hverjum tíma. Fjórðungur af nettóhagnaði félagsins ár hvert skal renna í varasjóð. Sjóðurinn skal þó aldrei vera stærri en 10% af heildareignum félagsins. Varasjóði þessum má einungis ráðstafa ef upp koma neyðartilfelli, að mati stjórnar. Enginn félagi hefur tilkall til hluta af sjóðnum þó hann hverfi úr félaginu eða því sé slitið.

Útskýring

Stafsetning leiðrétt.

19. grein

Núverandi

Félagsgjöld eru frá 1. janúar til 31. desember. Gjalddagi félagsgjalda skal vera 1. febrúar ár hvert eða eigi síðar en einum mánuði frá inngöngudegi félaga. Hafi greiðslur eigi borist innan tilgreinds tíma telst viðkomandi ekki fullgildur félagi.

Breytingatillaga

Árlegt félagsgjald er greitt fyrir tímabilið frá 1. janúar til 31. desember. Gjalddagi félagsgjalda skal vera 1. febrúar ár hvert.

Útskýring

Til að skýra betur tímabilið.
Niðurfelldur text hefur komið fram áður í 6. grein, áður 7. grein.

Skyldur stjórnar

20. grein

Núverandi

Í byrjun hvers starfsárs skipar stjórn umsjónarmann köfunarferða og sér til þess að köfunarstjórum sé úthlutað á allar ferðir. Gefa skal út köfunardagskrá eigin síðar en tveim mánuðum eftir að nýtt starfsár hefst. Umsjónarmaður raðar köfunarstjórum á ferðir og tryggir að þeir stjórni öllum ferðum sem farnar eru í nafni félagsins. Félagið skal standa fyrir kynningu á hlutverki og skyldum köfunarstjóra ásamt notkun öryggisbúnaðar. Að öðru leiti eftir settum reglum á hverjum tíma.

Breytingatillaga

Grein felld út

Útskýring

Hluti greinarinnar hefur þegar komið fram í fyrri breytingum (14. grein, áður 15. grein) og annað verður hluti af starfsreglum sem stjórn setur sér hverju sinni.

Deildir

21. grein

Núverandi

Deildir Sportkafarafélags Íslands er hægt að stofna með samþykki stjórnar og skulu starfa eftir 2. grein laga Sportkafarafélags Íslands. Stofnun deildarinnar skal lögð fyrir næsta aðalfund til formlegrar staðfestingar. Þeir einir geta tekið þátt í starfsemi deilda sem teljast fullgildir meðlimir í Sportkafarafélagi Íslands og skulu fylgja í öllu lögum og reglum félagsins. Deild skal hið minnsta skipuð deildarstjóra ásamt gjaldkera og er heimilt að innheimta sérstök deildargjöld til að standa straum af kostnaði við rekstur deildarinnar. Deildir skulu skila skýrslu um starfsemi ársins ásamt reikningum til stjórnar félags við lok starfsárs sem miða skal við almanaksár.

Breytingatillaga

Grein felld út

Útskýring

Grein felld út, stjórnin telur ekki þörf á því að skipta félaginu upp í deildir.

Úrsögn og brottvikning

22. grein

Núverandi

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn. Úrsögn fær gildi einum mánuði eftir að hún barst stjórninni. Félagsgjöld eru ekki endurgreidd þó að við úrsögn sé ekki liðið yfirstandandi gjaldár.

Breytingatillaga

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn. Úrsögn tekur gildi einum mánuði eftir að hún berst stjórninni. Félagsgjöld eru ekki endurgreidd þó að við úrsögn sé ekki liðið yfirstandandi gjaldaár.

Útskýring

Málfarsbreytingar.

23. grein

Núverandi

Brjóti félagi lög eða reglur félagsins, sýni agaleysi, vítavert eða ítrekað kæruleysi við sportköfun er stjórninni heimilt að setja hann í bann um tiltekinn tíma. Stjórn getur vikið félaga úr félaginu en ákvörðun þeirra er heimilt að áfrýja til næsta aðalfundar.

Breytingatillaga

Brjóti félagi lög eða reglur félagsins, sýni agaleysi, vítavert eða ítrekað kæruleysi við sportköfun er stjórninni heimilt að setja hann í bann um tiltekinn tíma. Stjórn getur vikið félaga úr félaginu en ákvörðun hennar er heimilt að áfrýja til næsta aðalfundar.

Útskýring

Málfarsbreyting

Félagsslit

24. grein

Núverandi

Félaginu verður aðeins slitið á aðalfundi sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni og verður að minnsta kosti helmingur atkvæðisbærra manna að vera mættir og 3/4 hluti hinna mættu fundarmanna samþykkir slitum þess. Verði félagsslit ákveðin skal Íþróttasambandi Íslands falin umsjón eigna félagsins þar til annað félag í svipuðum tilgangi yrði stofnað og ganga eignirnar þá til hins nýja félags.

Breytingatillaga

Félaginu verður aðeins slitið á aðalfundi sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni og verður að minnsta kosti helmingur atkvæðisbærra manna að vera mættur og 3/4 hluti hinna mættu fundarmanna samþykkir slitum þess. Verði félagsslit ákveðin skal Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands falin umsjón eigna félagsins þar til annað félag í svipuðum tilgangi verður stofnað og ganga eignirnar þá til hins nýja félags.

Útskýring

Málfarsbreytingar

25. grein

Núverandi

Lög þessi öðlast gildi 21. nóvember 1998 með síðari breytingum 29. nóvember 2003, 6. nóvember 2004, 9. febrúar 2008, 20. febrúar 2010, og 18. febrúar 2012, 22. febrúar 2014.

Breytingatillaga

Grein felld út

Útskýring

Óþarft að hafa upptalingu á lagabreytingum sem grein í lögum, leggjum til að lögin séu frekar dagsett undir greinum svona:

Þannig samþykkt á aðalfundi SKFÍ, 17. febrúar 2018.